Áramótaannáll Miðeindar 2025

Miðeind fagnaði tíu ára afmæli árið 2025. Það var ár uppskeru og árangurs hjá fyrirtækinu — og bjó vel í haginn fyrir árið 2026, sem allt útlit er fyrir að verði afar spennandi.

Skýrasta mælistikan á árangur ársins er fjöldi skráðra notenda á Málstað, máltæknivettvangi okkar. Í byrjun árs voru þeir rétt rúm 7.000, en nú í lok 2025 eru þeir orðnir 22.000; notendafjöldinn hefur sem sagt þrefaldast! Viðtökur á Málstað hafa verið hreint út sagt frábærar, meðal almennings, fyrirtækja, stofnana og skóla. Það er líka ánægjulegt að óvenju hátt hlutfall skráðra notenda greiðir fyrir áskrift, miðað við það sem gengur og gerist — og það hlutfall óx jafnt og þétt yfir árið.

Stærsta einstaka frétt ársins í okkar ranni var án efa kaup Miðeindar á Snöru, því vel þekkta og gamalgróna rafræna orðabókasafni. Eftir viðræður og þreifingar um nokkurt skeið var gengið frá samningum við Forlagið um kaupin í júní. Á degi íslenskrar tungu — 16. nóvember — kynntum við svo nýtt, glæsilegt og hraðvirkt viðmót á Snöru innan Málstaðar. Tækifæri til samþættingar orðabóka og heimildarita Snöru við aðra virkni á Málstað eru margvísleg. Nú þegar er hægt að fletta upp orðskýringum beint úr ritli málrýnisins Málfríðar, en það er aðeins toppurinn á ísjaka möguleikanna.

Eftir umfangsmikla þróun á árinu er Málstaður nú orðinn afar fullkominn vettvangur fyrir hugbúnað sem þjónustu (Software-as-a-Service, SaaS), með allri þeirri virkni sem slíku fylgir — utanumhaldi notenda og hópa, aðgangsstýringu, notkunarskráningu, verðskrám, reikningagerð með öllu sínu flækjustigi, o.s.frv. Hann er traust undirstaða undir alls kyns máltækni- og gervigreindartengda þjónustu sem Miðeind getur veitt og mun veita í framtíðinni.

Virkni Málstaðar fyrir notendur tók líka stórstígum framförum á árinu. Í mars bættist Erlendur, vélþýðingarverkfærið okkar, við vettvanginn. Erlendur þýðir texta lipurlega á milli íslensku og fjölmargra annarra tungumála. Hann stendur sig mun betur en t.d. Google Translate, sem mörg þekkja. Meðal annars flettir hann upp í orðabókum bak við tjöldin (og þar mun Snara koma sér vel!). Þá gerir hann notendum kleift að skilgreina sína eigin orðalista og þýðingapör, sem auðveldar klæðskerasaumaðar þýðingar, fækkar villum og bætir samræmi. Gaman er að segja frá því að Erlendur varð meðal efstu keppenda í alþjóðlegu vélþýðingarkeppninni WMT í Suzhou í Kína í byrjun nóvember, þar sem m.a. var keppt í þýðingum úr ensku yfir á íslensku og í þýðingum með stuðningi orðalista.

Í apríl bættist við Málstað virkni til að taka saman texta og skrifa fundargerðir. Nú er því hægt að taka upp fundi (til dæmis á snjallsíma), senda hljóðskrána inn í Hreim sem breytir talinu í texta, skella textanum í samantektina og fá út greinargóða fundargerð um það sem rætt var og ákveðið á fundinum. Við hjá Miðeind borðum okkar eigin hundamat og notum þessa virkni til að taka saman innri fundi og stjórnarfundi í fyrirtækinu. Ég get vottað að þessar fundargerðir eru mun betri en þær sem meðal-fundarritarinn skrifar! — Fyrir utan að með þessari tækni geta allir fundarmenn einbeitt sér að umræðunni sjálfri.

Sjálfvirk fundargerð með Hreimi og Málfríði

Nýjasta virknin á Málstað gerir notendum kleift að útbúa sjálfvirkt fundargerð út frá hljóðupptöku.

shape

Áðurnefndur Hreimur tók einnig framförum og getur nú greint milli mælenda í upptökum á samtölum. Þá er viðmót hans orðið mun öflugra og þjálla, auðveldara er að vinna með (og þýða) skjátexta og fleira mætti nefna.

Talandi um textun og þýðingu myndefnis: Miðeind sótti um og fékk veglegan styrk úr Markáætlun Rannís í tungu og tækni, til verkefnis sem gengur út á að þýða erlent tal í sjónvarps- og myndbandaefni yfir í íslenskt tal, með því sem næst upphaflegum raddblæ. Um er að ræða þriggja ára rannsókna- og þróunarverkefni sem er einkum ætlað að auðvelda og flýta talsetningu barnaefnis, en mun ef allt gengur upp virka fyrir hvers kyns efni, einnig fyrir fullorðna. Við bindum vonir við að verkefnið geti aukið verulega framboð á talsettu barnaefni á íslensku, og þá aðallega framboð efnis sem annars hefði ekki verið þýtt eða talsett. Árangur á þessu sviði getur skipt miklu máli fyrir framtíð tungumálsins okkar.

Það gladdi okkur að í framhaldi af tillögu og umsögn Miðeindar í samráðsgátt stjórnvalda varðandi frumvarp menningarráðherra um menningarframlag streymisveitna (t.d. Netflix og Disney) var frumvarpinu breytt. Breytingin er á þann veg að fjárfesting streymisveitna í skjátextun og talsetningu erlends sjónvarpsefnis kemur til lækkunar á menningarframlagi þeirra. Það þýðir að skjátextun og talsetning á íslensku er í raun „ókeypis“ fyrir streymisveiturnar, sem verður lyftistöng fyrir tungumálið — og þýðendur og raddleikara sem sinna skjátextun og talsetningu, og fyrir íslenska máltækni.

Miðeind heldur úti leiðtogatöflu yfir færni allra helstu gervigreindar-mállíkana í íslensku. Þar eru líkönin prófuð og frammistaðan mæld í ýmsum verkefnum, svo sem að sambeygja nafnorð og lýsingarorð, greina málfræðivillur, fylla í eyður og svara spurningum um íslenska sögu og menningu. Taflan naut vaxandi athygli á árinu og við vitum til þess að hún sé höfð til viðmiðunar hjá þekktum tæknifyrirtækjum á sviði gervigreindar. Meðal annars gildir það um Google, og hvort sem það er því að þakka eða ekki þá stukku líkönin Gemini 2.5 Pro og svo 3.0 Pro upp í efstu sæti leiðtogatöflunnar seinnipart árs. Sérstaklega er árangur Gemini 3.0 Pro eftirtektarverður, en það nær yfir 88% meðalskori — sem bendir til þess að prófin okkar séu að verða mettuð, þ.e. of létt fyrir bestu líkönin. Að því verður hugað á nýju ári. Vel gert, Google!

Íslenska er ekki bara málfræði og beygingar, hún er líka skemmtileg og það er hægt að sameina leik með hana og góða æfingu fyrir heilann. Netskraflið sívinsæla, þar sem 10% landsmanna hafa einhvern tíma skráð sig til leiks, fékk andlitslyftingu í lok ársins og mun færast alfarið inn á Málstað á nýju ári. Í desember bættist svo við Gáta dagsins, dagleg krossgátuþraut þar sem leikmenn spreyta sig á að finna stigahæstu lögnina á skraflborði. Þar fer fram harðvítug barátta skraflmeistara landsins á hverjum degi um að komast inn á listann yfir þau 50 fyrstu sem leysa gátuna.

Miðeind tók áfram virkan þátt í samfélagsumræðu um möguleika og áskoranir gervigreindar og máltækni. Fulltrúar fyrirtækisins hafa skrifað fjölda greina, farið í útvarps- og sjónvarpsviðtöl, verið með bása á Vísindavöku og UT-messu, tekið á móti nemum í vísindaferðum, talað á ráðstefnum og tekið þátt í pallborðum hérlendis og erlendis. Við mótuðum og gáfum út texta um stefnu og tilgang fyrirtækisins og veltum fyrir okkur besta rekstrarforminu til að þjóna þeim tilgangi. Þeim pælingum verður örugglega haldið áfram á nýju ári.

Eins og sagði í upphafi var árið 2025 ár uppskeru og árangurs. Hópurinn hjá Miðeind, undir skeleggri forystu Lindu Heimisdóttur framkvæmdastjóra og Þorvaldar Helgasonar tæknistjóra, er orðinn afar samvalinn og samstilltur og afköstin eru eftir því. Ég hef starfað yfir 40 ár á sviði upplýsingatækni og þekki úrvalsgóðan hóp þegar ég sé hann. Það eru sannkölluð forréttindi að mæta í vinnuna á hverjum degi og sjá okkar öfluga teymi ganga á öllum strokkum og rúmlega það við að þjóna góðum málstað á því spennandi sviði sem gervigreind og máltækni er. Ég hlakka til að sjá hverju við fáum áorkað á nýju ári, sem margt bendir til að geti orðið jafnvel enn árangursríkara en það góða ár sem nú er að líða.

Gleðilegt nýtt ár!

Skráðu þig á póstlistann okkar!

Efnisorð:
Deildu þessari grein: