Nýtt! Prófaðu Málstað, vettvang fyrir allar helstu vörur Miðeindar.
Ritstjórn
11.3.2025
Málstaður heldur áfram að þróast á fullu blússi, en eins og við tilkynntum fyrir helgi eru nú yfir 10.000 notendur skráðir! Við þökkum kærlega fyrir viðtökurnar og höfum nú gert Málstað enn gagnlegri og notendavænni.
Þýðingarvélin Erlendur hefur nú bæst í hóp aðgengilegra lausna á Málstað. Með Erlendi er hægt að þýða texta á hvaða tungumáli sem er á auðveldan og aðgengilegan máta. Hægt er að hlaða niður bæði upphaflega textanum og þýðingunni sem textaskrám, en Erlendur styður helstu skráarsnið (.docx, .odt, .md).
Þýðingarnar taka mið af víðu samhengi í texta og virka því best fyrir lengri texta. Tillit er tekið til orðatiltækja og óeiginlegrar merkingar í þýðingunni, og útkoman tekur mið af blæ upprunalega textans.
Erlendur sér einnig um að þýða skjátexta innan Hreims, og því hefur tungumálaúrval þar því aukist gríðarlega.
Á myndinni að neðan má sjá hversu fimlega Erlendi tekst að þýða alls kyns óeiginleg orðatiltæki úr ensku („throw in the towel“) yfir á íslensku („gefast upp“). Svona þýðing útheimtir „skilning“ á textanum, umfram það að geta þýtt hann frá orði til orðs. Við mælum með því að lesendur prófi svipaða texta í öðrum þýðingarkerfum og sjái sjálfir muninn.
Erlendur hefur víðtæka skírskotun og samspil hans við aðrar lausnir innan Málstaðar er augljóst. Sem dæmi má nefna að hægt er að senda tal-upptöku inn í Hreim, fá uppritaðan texta út, senda hann í Málfríði og snyrta hann til, og loks senda hann til Erlends í þýðingu yfir á annað tungumál. Möguleikarnir eru mýmargir og við hlökkum til að heyra hvernig Erlendur gagnast þér!
Hópáskrift er nú aðgengileg í sjálfsafgreiðslu á áskriftarsíðu Málstaðar. Hún er frábær kostur fyrir fyrirtæki og stofnanir sem vilja veita starfsfólki sínu aðgang að lausnum á Málstað, en er einnig kjörin fyrir aðra hópa og einstaklinga sem þurfa víðtækari notkun en hefðbundin einstaklingsáskrift býður upp á.
Með hópáskrift fá notendur aðgang að sömu eiginleikum og í einstaklingsáskrift, en að auki býðst hópstjórnborð sem gerir stjórnendum kleift að hafa yfirsýn yfir notkun innan hópsins og stjórna aðgangi með skilvirkum hætti.
Áskriftargjald fyrir grunnaðgang hópáskriftar er 1.690 kr + VSK á mánuði fyrir hvern notanda. Notkunargjald bætist við fyrir þær þjónustur Málstaðar sem greitt er fyrir eftir notkun. Þú getur því notað lausnir innan Málstaðar eins og þér hentar og svo borgað eftir notkun.
Hreimur: 1.500 kr + VSK á klukkustund.
Erlendur: 5 kr + VSK á hver 1.000 stafabil.
Nánar má sjá verðskrá okkar á áskriftarsíðu Málstaðar.
Hópstjórnborðið er aðgengilegt fyrir eiganda og stjórnendur hópa með því að smella á notandatakkann efst til hægri á síðunni.
Á hópstjórnborðinu eru ýmsir möguleikar á fínstillingum fyrir áskriftina.
Með notkunarstillingum er hægt að fylgjast með notkun hópsins, bæði í yfirstandandi mánuði og fyrri mánuðum (frá febrúar 2025). Þar er einnig hægt að stilla hámarksupphæð mánaðarnotkunar sem hjálpar til við að halda kostnaði innan fjárhagsáætlunar. Í augnablikinu tengist þessi kostnaður eingöngu notkun á Hreimi og Erlendi, en ný virkni í Málfríði mun bætast við á þessum vettvangi á næstunni.
Undir þessum flipa er hægt að sjá heildarupphæð kostnaðar, sundurliðaða eftir notkun og fjölda notenda fyrir hvern mánuð. Þetta gerir stjórnendum kleift að hafa nákvæma yfirsýn yfir kostnað og skipuleggja notkun innan hópsins í samræmi við það.
Aðgangsstýringin gerir stjórnendum kleift að bjóða nýjum notendum í hópinn með einföldu tölvupóstboði. Notendur eru flokkaðir í þrjár gerðir með mismunandi réttindi:
Eigandi: Einn aðili sem ekki er hægt að eyða úr hópnum. Eigandi mun síðar geta afvirkjað hópinn í heild sinni ef þörf krefur. Eigandi hefur einnig öll réttindi stjórnanda.
Stjórnandi: Hefur aðgang að stjórnborðinu og getur bætt við notendum og stjórnað stillingum hópsins. Stjórnandi hefur að auki sömu réttindi og almennur notandi.
Notandi: Getur notað allar lausnir á Málstað í gegnum hópinn, þ.e. Málfríði, Hreim, Erlend og Svark.
Á næstunni stefnum við að því að birta einnig upplýsingar um hvenær hver notandi var síðast virkur á Málstað.
Auk alls þessa höfum við aukið við þau fríðindi sem þú færð í Málstað sem áskrifandi. Hámarkslengd hljóðskráa sem hægt er að senda inn í Hreim hefur verið hækkuð úr einni klukkustund í þrjár. Aðgangur að Erlendi er innifalinn í einstaklingsáskrift, og hægt er að þýða allt að 500.000 stafi á mánuði. Erlendur er einnig aðgengilegur í ókeypis aðgangi en í minna mæli, eða 10.000 stafir á mánuði.
Við höfum uppfært skilmála okkar til að endurspegla þessar breytingar, og nú eru komnir sérstakir skilmálar fyrir hópáskriftina. Almennu skilmálarnir voru einnig uppfærðir til að samræmast nýju skilmálunum.
Hægt er að nálgast notkunarskilmála hér.
Hægt er að nálgast persónuverndarstefnu hér.
Við vinnum stöðugt að því að bæta þjónustu okkar. Ýmislegt fleira spennandi er í farvatninu:
Tenging við ytri kerfi eins og Microsoft lausnir (Word, Outlook og Teams)
Uppflettingar og orðabókarvirkni í Málfríði og Erlendi
Margvísleg aukin virkni og tenging lausna innan Málstaðar
Njóttu uppfærðs Málstaðar, og fylgstu áfram með hér!