Sigurlín Margrét Sigurðardóttir ritaði pistilinn „Hvar er textinn?“ sem birtist hér á Vísi 11. september. Þar fjallar hún um reynslu stórs hóps í íslensku samfélagi sem er útilokaður frá sjálfsagðri þátttöku í þjóðmálaumræðu, afþreyingu og menningu vegna skorts á textun íslensks hljóð- og myndefnis í sjónvarpi og stafrænum miðlum. Sem framkvæmdastjóri máltæknifyrirtækis langar mig að bæta við umræðuna og benda á mikilvæga staðreynd: Tæknin til að leysa þennan vanda er þegar til staðar á Íslandi.
Í pistlinum bendir Sigurlín réttilega á að þegar hljóð dettur út í útsendingu er það lagað samstundis. Áratugum saman hefur afsökunin fyrir fjarveru texta hins vegar verið sú að textun sé flókið, tímafrekt og kostnaðarsamt handverk. Sú var vissulega raunin áður fyrr, en ekki lengur. Tækniþróun síðustu ára, sérstaklega á sviði gervigreindar, hefur gjörbylt þessu landslagi. Hindranirnar eru ekki lengur tæknilegar, heldur snúast þær um vilja og forgangsröðun.
Við hjá Miðeind höfum um árabil þróað máltæknilausnir sem eru sérsniðnar að íslenskri tungu. Ein þessara lausna er talgreiningarlíkanið Hreimur sem umbreytir íslensku töluðu máli í nákvæman, uppskrifaðan texta og skilar einnig af sér fullbúnum, tímakóðuðum skjátexta. Þetta þýðir að hægt er að texta fréttainnslög, Kastljósþætti, heimildarmyndir, hlaðvörp eða heilu þáttaraðirnar með sjálfvirkum hætti og fyrir brot af þeim kostnaði og fyrirhöfn sem áður þurfti.
Hreimur textar enn sem komið er ekki í rauntíma og getur því ekki textað beina útsendingu á meðan hún fer fram. Hins vegar er nánast allt það efni sem fer í loftið aðgengilegt á vefsvæðum og streymisveitum fjölmiðlanna örfáum mínútum eftir útsendingu og á þessum mínútum getur Hreimur útbúið viðeigandi skjátexta. Það er því engin tæknileg fyrirstaða fyrir því að allir íslenskir þættir séu komnir með vandaðan íslenskan texta skömmu eftir útsendingu. Vanræksla á þessu sviði er því algjörlega óverjandi.
Krafa Sigurlínar um að textun verði lögbundin skylda er ekki aðeins sanngirnismál heldur einnig fullkomlega raunhæf krafa í tæknilegu samhengi. RÚV, sem almannaþjónustumiðill, og aðrir íslenskir fjölmiðlar hafa enga afsökun lengur. Þeir bera þá skyldu að þjóna öllum landsmönnum og tæknin sem gerir þeim það kleift er innan seilingar. Að nýta hana ekki er meðvituð ákvörðun um að útiloka hluta þjóðarinnar, svo ekki sé minnst á þann mikla ávinning sem textun gefur þeim sem eru að læra íslensku.
Við hjá Miðeind vinnum samkvæmt þeirri stefnu að tæknin eigi að styrkja samfélagið og gera íslensku aðgengilega öllum. Við erum reiðubúin að leggja okkar af mörkum og vinna með fjölmiðlum að innleiðingu þessara lausna. Ákall Sigurlínar er skýrt og brýnt. Nú er það á ábyrgð fjölmiðla og stjórnvalda að svara kallinu. Tryggjum að svarið við spurningunni „Hvar er textinn?“ sé alltaf: „Hér er hann.“
Ef þú vilt fylgjast með frekari verkefnum hjá Miðeind getum við látið þig vita þegar eitthvað nýtt er að frétta.