Miðeind er vettvangur samvalins hóps fólks sem vill gera gagn, læra, þróast og hafa gaman í starfi sínu. Við finnum sjálfbærar leiðir til að nýta tækifæri og takast á við áskoranir sem Ísland og íslenska – og önnur minni tungumál mannkyns – standa frammi fyrir á sviði máltækni og gervigreindar.

Stefna og tilgangur Miðeindar

Miðeind getur aldrei verið annað en sá hópur fólks sem sameinast undir merki hennar og markmiði. Hópurinn á það sameiginlegt að vilja starfa við máltækni og gervigreind og vinna málstað íslenskunnar gagn, samhliða því að vera stöðugt að læra og þróast í starfi, og hafa jafnframt gaman af öllu saman.

Miðeind er að svo komnu máli fyrirtæki, en ekki til dæmis sjálfseignarstofnun. Þetta kann að breytast; rekstrarformið á að þjóna markmiðinu.

Miðeind styður íslensku og styrkir stöðu hennar með hjálp tækni og gervigreindar. Við viljum hjálpa málhöfum, innfæddum sem aðfluttum, ungum sem öldnum, hvort sem þeir glíma við fatlanir eður ei, að tjá sig í ræðu og riti, og að skilja ritað og talað mál, bæði á íslensku og á öðrum tungumálum með hjálp vélþýðingar. Við viljum hjálpa fólki að nálgast þekkingu og eiga sem greiðust samskipti óháð tungumálum og staðsetningu, í starfi og í öllu daglegu lífi. Við viljum verja hlutlægan sannleika, styrkja stoðir lýðræðislegs samfélags og mannréttinda, lágmarka skaðlega bjaga og vinna gegn hatursorðræðu.

Miðeind finnur sjálfbærar leiðir: Verkefnið er að ná að gera gagn á sviði viðfangsefnisins, ekki bara til skamms tíma eða þangað til örendi þrýtur, heldur til lengri tíma. Það útheimtir leiðir, eða samtvinnun leiða, sem eru sjálfbærar annaðhvort hver í sínu lagi eða a.m.k. saman. Slíkar leiðir geta falið í sér ýmis form samstarfs, til dæmis við háskóla, sjóði, einkafyrirtæki og opinbera aðila, innanlands og erlendis.

Miðeind nýtir tækifæri: Tiltekin viðföng og lausnir á sviði máltækni og gervigreindar geta verið samkeppnisfær og arðbær á markaði. Miðeind greinir og grípur slík tækifæri þar sem þau gefast og samræmast tilgangi og meginstefnu fyrirtækisins. Þá dregur fyrirtækið lærdóma af fyrri tæknibyltingum um strategíur til að lifa af, velja og hafna, og verða ofan á sem sigurvegari.

Miðeind tekst á við áskoranir: Miðeind gerir þó ekki að skilyrði að verkefni þurfi að vera fyrirsjáanlega arðbær til að takast á við þau sem áskorun, ef þau eru samfélagslega mikilvæg og þjóna markmiðum. Oft er hægt að læra af erfiðum áskorunum, og það getur verið gefandi að leysa þær, notendum og samfélagi til heilla.

Miðeind miðlar þekkingu: Þær aðferðir sem Miðeind þróar, og reynsla sem við söfnum í vinnu við íslensku, geta hugsanlega nýst öðrum minni tungumálum mannkyns. Við erum reiðubúin að rétta öðrum málsamfélögum hjálparhönd til að vinna að sambærilegum markmiðum og þeim sem við höfum fyrir íslensku. Þá leggur Miðeind sig fram um að fræða íslensk stjórnvöld og íslenska málhafa um stöðu þekkingar og þær áskoranir og tækifæri sem eru fyrir hendi hverju sinni.

Miðeind sameinar máltækni og gervigreind: Miðeind einbeitir sér að uppbyggingu þekkingar, slagkrafts og reynslu á sviði máltækni og gervigreindar, einkum fyrir íslensku og önnur minni tungumál. Aðferðir sem hámarka vogarstangarafl, þ.e. ná sem mestum árangri með sem minnstri handavinnu og fjármagni (svo sem beiting gervigreindar til að búa til þjálfunargögn fyrir öflugri gervigreind) eru sérstakt áherslusvið.

Miðeind vinnur verkefni sem aðrir sinna ekki: Eftir því sem gervigreindartækni fleygir fram opnast tækifæri til hagnýtingar og vöruþróunar á sviði máltækni sem krefjast ekki þeirrar djúpu sérþekkingar á tauganetum, mállíkönum og málföngum sem starfsfólk Miðeindar býr yfir. Miðeind lætur öðrum eftir slík hagnýtingarverkefni og beinir kröftum sínum í staðinn að verkefnum og vandamálum þar sem Miðeind er í sérstöðu til að þróa réttu lausnina.

Miðeind er tilgangsdrifin: Meginmarkmið Miðeindar er ekki að skila hagnaði til hluthafa heldur að skila ávinningi til samfélagsins. Fari svo að fyrirtækið finni leið til sjálfbærni og hagnaðar mun markmiðið ávallt vera að skila þeim hagnaði aftur til samfélagsins í formi aukinnar fjárfestingar í tækni og verkefnum sem ekki er hægt að sinna á markaðsforsendum eingöngu.