Ritstjórn
17.11.2025
Við hjá Miðeind fögnuðum degi íslenskrar tungu með uppfærslum á Málstað. Markmið dagsins er að minna á mikilvægi tungumálsins okkar og fagna sögu þess, samtíð og framtíð.
Við höfum sett inn nokkrar spennandi nýjungar sem gera notkun Málstaðar enn skemmtilegri og gagnlegri:
Snara
Orðabækur Snöru eru nú aðgengilegar á vefnum Málstað með nýju, fersku og glæsilegu viðmóti. Notendaviðmótið rennur ljúft, leitin er sneggri og hægt er að leita eftir ólíkum orðmyndum. Auðvelt er að skoða niðurstöður og aðrar svipaðar færslur með hliðarstikum. Við lögðum mikið upp úr því að hanna útlit sem héldi tryggð við gömlu Snöru en virkaði betur. Snara í nýju viðmóti er aðgengileg í gegnum Málstað og er hluti af bæði fastri áskrift og frjálsri áskrift að Málstað. Opin orðasöfn Snöru eru svo áfram aðgengileg í ókeypis aðgangi.
Netskrafl
Hinn sívinsæli krossgátuleikur Netskrafl er nú kominn inn á Málstað. Yfir 40.000 Íslendingar hafa einhvern tíma skráð sig til leiks. Nú er hægt að skrafla við aðra leikmenn eða þjarka með mismunandi erfiðleikastigum.
Gáta dagsins
Síðasta en ekki sísta viðbótin er Gáta dagsins, ný krossgátu-þraut þar sem leikmenn fá hálf-útfyllt skraflborð og eiga að finna bestu mögulegu lögn út frá tilteknum stafarekkum. Ný gáta birtist á hverjum degi á miðnætti. Sá sem fyrstur leysir Gátu dagsins fær efsta sætið í stigatöflunni, sem uppfærist í rauntíma.
Við hjá Miðeind vinnum stöðugt að því að bæta þjónustu og kynna nýjungar sem nýtast íslenskum málhöfum í leik og starfi. Þannig styrkjum við tungumálið okkar og tryggjum að það haldi áfram að blómstra. Við fjöllum svo reglulega um það sem við gerum á vefsíðu og samfélagsmiðlum Miðeindar, endilega fylgstu með.
Við hvetjum alla til að leggja íslenskunni lið – stuðningur við tungumálið er góður málstaður!
Ef þú vilt fylgjast með frekari verkefnum hjá Miðeind getum við látið þig vita þegar eitthvað nýtt er að frétta.