Gáta dagsins

Hefurðu gaman af krossgátum, heilabrotum og góðlátlegri keppni við annað áhugafólk? Finnst þér íslenskan skemmtileg og vilt auka við orðaforðann? Þá er Gáta dagsins  fyrir þig!

Gáta dagsins er krossgáta þar sem leikmenn spreyta sig á að finna stigahæstu mögulegu skrafllögnina. Ný gáta birtist á hverjum degi og er ókeypis og aðgengileg öllum innskráðum notendum á Málstað. Stigahæstu leikmennirnir vinna sér sess á stigatöflu sem uppfærist í rauntíma og áskrifendur geta spreytt sig á eldri gátum og kallað fram bestu lausnina ef þolinmæðina þrýtur.

Gáta dagsins

Gáta dagsins er daglegur krossgátuleikur sem hægt er að spila í tölvu, farsíma eða spjaldtölvu. Leikurinn byggir á sama grunni og hið sívinsæla Netskrafl. Búið er að leggja niður talsvert af orðum á borð og þrautin er að finna bestu mögulegu lögnina að gefnum tilteknum stafarekka.

Eins og aðdáendur Netskrafls vita þá er hægt að skrafla þar við þjarka sem búa yfir miserfiðum orðaforða. Þessir sömu þjarkar hafa lykilhlutverki að gegna í sköpun Gátu dagsins því að borðið sjálft er fengið með því að etja tveim þjörkum saman. Lausnarorðið og stafarekkinn eru svo fengin með því að tilgreina ýmsar skorður sem gera leikinn sem skemmtilegastan og vonandi hæfilega erfiðan.

Ránmorð,

er það orð?

Í Netskrafli getur fólk skraflað hvert við annað eða við misglúrna tölvuþjarka. Netskrafli var hleypt af stokkunum árið 2015 og síðan þá hafa nærri 42.000 manns skráð sig þar til leiks. Það er ókeypis en þau sem vilja styrkja rekstur þess geta gerst áskrifendur og lagt sem nemur sirka einum kaffibolla á kaffihúsi á mánuði í púkkið.

Orðaforði Netskrafls byggir á Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls (BÍN) sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum heldur úti. Og já, samkvæmt BÍN er ránmorð orð!

Netskrafl

Netskrafl hefur slegið í gegn sem skemmtileg og skerpandi afþreying fyrir öll sem hafa gaman af íslenskunni, krossgátum og spennandi viðureignum. Á netskrafl.is er hægt að skrafla við annað fólk og við tölvuþjarkana AmlóðaMiðlung og Fullsterkan. Orðaforði Netskrafls byggir á Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls (BÍN), en í henni eru um 2,4 milljónir ólíkra orðmynda sem leggja má niður í skrafli.

Netskraflarar koma saman í líflegum fésbókarhópi, þar sem m.a. eru skipulögð regluleg skraflmót sem fram fara í gegnum tölvuskjáinn.