Við þökkum kærlega fyrir þær góðu móttökur sem Málstaður hefur fengið, en nú hafa yfir 20 þúsund manns gerst notendur. Frá því að Málstaður fór í loftið hefur gríðarlega margt breyst og bæst við hann, allt með það að markmiði að þjónusta notendur sem best. Við höfum nú bætt enn meiri virkni inn á Málstað og gert skýrara hvernig þú getur nýtt þér hann.
Ný virkni: Hliðarstika í Málfríði og einfalt mál
Nú er enn auðveldara að vinna með textann þinn í nýrri hliðarstiku í Málfríði. Allar helstu aðgerðir fyrir textann þinn eru aðgengilegar í hliðarstikunni, þar á meðal samantekt fyrir fundargerðir.
Í hliðarstikunni má einnig finna nýja virkni sem kemur textanum þínum yfir á einfalt mál. Virknin getur hjálpað þér að skrifa texta sem hæfir betur þínum markhópi svo fleiri skilji hann, og getur einnig hjálpað þér við að skilja betur flókna texta. Við vonumst til þess að einfalt mál nýtist við að bæta aðgengi ólíkra hópa að efni á íslensku, en þó á almennari máta en auðlesið mál.
Við kynntum nýverið að orðabækur Snöru væru nú aðgengilegar á vef Málstaðar með nýju viðmóti, ásamt Netskrafli og Gátu dagsins. Nú geturðu valið texta í Málfríði, stakt orð eða fleiri, og flett upp í orðabókum Snöru með því að velja orð. Uppflettingarnar eiga heima í nýju hliðarstikunni en einnig er hægt að fletta almennt upp í orðabókum Snöru í eigin viðmóti hennar á Málstað. Þetta er fyrsta beina nýtingin á orðabókum úr Snöru í öðrum lausnum Málstaðar, og gott dæmi um hvernig orðabækurnar geta nýst á ólíkum stöðum. Við erum með aðra áhugaverða möguleika í skoðun og hlökkum til að sýna þá.
Nýjar áskriftarleiðir og fyrirkomulag
Við höfum einfaldað hvernig þú notar vörurnar í Málstað til að endurspegla sem best raunnotkun.
Við höfum breytt nöfnum á áskriftarleiðum okkar og gert þau gagnsærri. Einstaklingsáskrift að Málstað heitir nú Föst áskrift. Hún felur í sér fasta notkunarinneign fyrir lausnir Málstaðar umfram grunnaðgang, s.s. annað en yfirlestur Málfríðar, uppflettingar í Snöru, Netskrafl og Gátu dagsins.
Hópáskrift heitir nú Frjáls áskrift. Þar skiptist greiðsla í fast áskriftargjald eftir fjölda notenda, og svo notkunargjald fyrir hópinn, fyrir lausnir Málstaðar umfram grunnaðgang.
Einnig höfum við bætt við nýjum áskriftarleiðum; stakri áskrift að Snöru og stakri áskrift að Netskrafli. Nánari upplýsingar um áskriftarleiðir og það sem í þeim felst er að finna á áskriftarsíðu Málstaðar.
Nú fá allir notendur í fastri áskrift inneign í krónum talið þvert yfir vörur, í stað þess að þurfa að fylgjast með notkuninni í hverri og einni lausn innan Málstaðar. Þetta gefur notendum betra tækifæri á að fullnýta inneign sína. Áskrifendur hafa enn ótakmarkaðan aðgang að yfirlestri í Málfríði og Snöru.
Hópar í frjálsri áskrift fá einnig inneign sem hópurinn samnýtir. Eftir það er hægt að borga eftir notkun. Notkunarkostnaður einfaldast og byggir á gjaldi fyrir textavinnslu (samantekt, einfalt mál eða þýðingar) og gjaldi fyrir talvinnslu (talgreining).
Ókeypis aðgangur: 500 krónur í inneign.
Föst áskrift: 10.000 krónur í inneign.
Frjáls áskrift: 1.000 krónur í inneign fyrir hópinn í heild sinni fyrir hvern notanda.
Þú getur nú keypt ársáskrift að Málstað og fengið með því 20% afslátt af heildarverðinu. Ársáskriftin er ekki í boði fyrir frjálsa áskrift en þar er á móti í boði að fá magnafslátt. Þú getur skuldbundið þig fyrir ákveðnum fjölda sæta og fengið í staðinn afslátt af grunngjaldi fyrir sæti.
Farðu á áskriftarsíðuna til að kynna þér málin betur.
Að lokum
Við erum mjög spennt að sjá hvernig nýja virknin kemur að notum og erum með margt annað áhugavert í pípunum. Við hvetjum notendur til að fylgjast með tilkynningum um spennandi nýjungar sem munu gera vinnu með íslenskan texta enn auðveldari og skilvirkari. Hægt er að fylgjast með hér á heimasíðu okkar, á Facebook, Instagram og á Linkedin.