Nýtt! Prófaðu Málstað, vettvang fyrir allar helstu vörur Miðeindar.

Tveimur verkefnum Miðeindar úthlutað styrkjum úr Fléttunni


Við hjá Miðeind, í samstarfi við LSH, urðum þess heiðurs aðnjótandi að vera eitt af tíu íslenskum frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækjum sem hlutu styrki úr Fléttunni í ár.


Fléttustyrkir Háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins styðja við innleiðingu nýsköpunar í heilbrigðiskerfinu. 


Tveimur aðskildum gervigreindarverkefnum Miðeindar var úthlutað styrkjum, en þau munu hvort tveggja koma til með að bæta framleiðni og þjónustu innan heilbrigðiskerfisins. 


Annar styrkurinn, að upphæð 8.644.000 kr, lýtur að sérútfærslu á Hreimi, talgreiningarlausn Miðeindar, sem mun auka skilvirkni Miðstöðvar um sjúkraskrárritun. Markmiðið er innleiðing lausnar sem skilar hreinskrifuðum dikteringum og lýsigögnum í sjúkraskrár. Lausnin stuðlar að tímasparnaði og framleiðniaukningu starfsfólks og þannig betri þjónustu við sjúklinga.


Þá fengust úthlutaðar 6.824.000 kr. til innleiðingar á Svarki, spurningasvörunarlausn Miðeindar, sem bætir þjónustu með nákvæmri upplýsingaleit og spurningasvörun. Lausnin leitar í þekkingargrunnum spítalans og gefur snögg svör á mannamáli. Markmiðið er að bæta þjónustu við sjúklinga og aðstandendur og flýta fyrir vinnu starfsfólks.


Við erum mjög spennt fyrir þeim möguleikum sem þessir styrkir opna á. Verkefnin veita verðmæta reynslu af notkun risamállíkana og gervigreindar innan heilbrigðiskerfisins sem mun nýtast í öðrum verkefnum. 


Sjá nánar: https://www.stjornarradid.is/.../Flettustyrkjum-uthlutad.../

Efnisorð:
Deildu þessari grein: