Nýtt! Prófaðu Málstað, vettvang fyrir allar helstu vörur Miðeindar.
Ritsjórn
21.9.2023
Miðeind, sem er leiðandi fyrirtæki á sviði máltækni og gervigreindar fyrir íslensku, kynnir í dag samstarf við danska fyrirtækið Cludo, sem sérhæfir sig í nýstárlegum vefleitarlausnum. Með samstarfinu verður unnt að bjóða almenningi mun öflugri og nákvæmari leitarvirkni á íslenskum vefsíðum en áður.
Samstarf fyrirtækjanna tveggja sameinar öfluga leitartækni Cludo og sérfræðiþekkingu Miðeindar á íslensku og gervigreind. Úr verður leitar- og spurningasvörunarlausn, sérhönnuð fyrir íslensku, þar sem stuðst er við merkingu leitarstrengs fremur en yfirborðsform.
„Samstarf okkar við Cludo gerir okkur kleift að bjóða viðskiptavinum okkar upp á vefleitarlausn sem sem hefur ekki áður verið í boði á íslenskum markaði,“ segir Linda Heimisdóttir, framkvæmdastjóri Miðeindar. „Okkur finnst mjög spennandi að samtvinna okkar máltækni við slípað viðmót og margreyndan leitarþjón Cludo, sem býður m.a. upp á alls kyns greiningartól. Varan okkar er alhliða lausn fyrir notendur, bæði fyrir hefðbundna leit og spurningasvörun knúna af gervigreind.“
„Síðan 2015 höfum við unnið með viðskiptavinum okkar að því að hanna nýstárlega vefleit sem bætir upplifun notenda. Við höfum bætt við gervigreindarlausnum fyrir viðskiptavini okkar úti um allan heim og við erum mjög spennt að nýta okkur sérfræðiþekkingu Miðeindar til þess að geta nú boðið íslenskum notendum okkar upp á sambærilega leitarlausn og er í boði hjá Cludo á mörgum öðrum tungumálum,“ segir Nick Wassenberg, framkvæmdastjóri Cludo. „Svona bylting á þjónustu – sem er sérlega mikilvæg fyrir vefsíður sem innihalda mikið magn upplýsinga, svo sem þær sem tengjast menntun, stjórnsýslu, ferðamennsku og bankaþjónustu – er aðeins möguleg í samstarfi við innlenda aðila sem skilja þær sérstöku áskoranir sem felast í máltækni fyrir íslenska tungumálið.“
Það er til mikils að vinna fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir að innleiða þessa tækninýjung sem býður m.a. upp á:
Öfluga og notendavæna vefleit sem bætir til muna upplifun vefsíðugesta
Nútímalega máltæknilausn með gervigreind sem eykur nákvæmni leitarniðurstaðna með því að leita eftir merkingu í stað lykilorða
Fágað greiningartól sem gerir eigendum vefsíðna m.a. kleift að skilja betur hegðun notenda og að finna hvar upplýsingum á vefsíðu er ábótavant
Aðstoð frá íslenskum þjónustufulltrúum hjá Cludo sem hjálpa fyrirtækjum að fá sem mest út úr leitarlausninni.