Miðeind setur sér eftirfarandi stefnu varðandi form, blæ og innihald máls á vegum fyrirtækisins.

Málstefna

Gildissvið. Stefnan á við texta og tal sem á upptök sín hjá Miðeind sem fyrirtæki, og er jafnframt leiðbeinandi fyrir starfsfólk Miðeindar þegar það kemur fram í nafni fyrirtækisins.

Birtingarform. Meðal annars tekur stefnan til vefja og vara á vegum fyrirtækisins, fréttatilkynninga, auglýsinga, efnis á samfélagsmiðlum, greina, kynninga og fyrirlestra.

Gott og vandað mál. Texti á vegum Miðeindar er samkvæmt málstaðli hvers tungumáls, rétt stafsettur og fylgir viðurkenndri málfræði. Hann er skýr, hreinn og beinn og án málalenginga. Hann þjónar ætíð þeim tilgangi að fræða og upplýsa lesendur á sem skilvirkastan hátt. Textinn má vera kíminn og skemmtilegur, svo lengi sem slík tilþrif hindra ekki skilning eða eyða tíma lesenda.

Markhópar. Texti á vegum Miðeindar hentar breiðum hópi, en er þó ekki einfaldaður í svo miklum mæli að það dragi úr skilvirkni fyrir meirihluta lesenda. Ef þörf krefur eru útbúnar aðrar útgáfur af texta sem hentar öðrum lesendahópum og útgáfurnar birtar samhliða. Þetta gildir einnig um þýðingar yfir á önnur tungumál.

Íðorð og nýyrði. Miðeind forðast slettur og reynir að nota viðeigandi íðorð á tungumáli hvers texta. Þegar íðorð skortir er leitast við að finna nýyrði eða styðja fyrirliggjandi tillögur. Ef ætla má að tiltekið nýyrði sé lesendum framandi er hjálplegt að setja þýðingu á eftir því, til dæmis „gátstaður (e. checkpoint)“. Til samræmingar og til að auðvelda notkun íðorða viðheldur Miðeind lista með íðorðum á sínu sviði sem starfsfólk getur leitað í og bætt við eftir þörfum.

Málblær. Miðeind talar í yfirveguðum og traustvekjandi tóni, jákvæðum eða hlutlausum eftir atvikum, grípur ekki til stóryrða og notar ekki ýkt eða vanstillt orðalag. Miðeind kynnir vörur sínar og þjónustu án þess að tala með neikvæðum hætti um keppinauta.

Afstaða. Texti á vegum Miðeindar samræmist stefnu og tilgangi fyrirtækisins, meðal annars: Við viljum verja hlutlægan sannleika, styrkja stoðir lýðræðislegs samfélags og mannréttinda, lágmarka skaðlega bjaga og vinna gegn hatursorðræðu.

Aðgengi. Miðeind leitast við að mæta og þjóna fólki í alls þess fjölbreytileika, innan marka áðurnefndrar stefnu og tilgangs. Miðeind notar viðeigandi tækni til að bæta aðgengi að efni fyrirtækisins, svo sem fyrir fólk sem býr við sjónskerðingu eða aðrar hindranir.

Fyrirmynd. Miðeind lætur ekki frá sér fordómafullt eða meiðandi efni.

Inngilding. Miðeind notar inngildandi orðalag þar sem þess er kostur fremur en útilokandi, og forðast merkimiða, flokkun og staðalímyndir. Miðeind leitast við að nota kynhlutlaust mál („Við hvetjum öll [ekki alla] sem hafa áhuga á gervigreind til að skrá sig…“) og viðeigandi persónufornöfn (hann/hún/hán).

Vöruþróun. Málstefnan tekur eins og kostur er, og eins og við á, einnig til úttaks úr vörum og þjónustu fyrirtækisins, svo sem málrýni, vélþýðingum og talgreiningu. Miðeind beitir bestu fáanlegu aðferðum í vöruþróun, meðal annars hvað varðar tækni og meðferð gagna, þannig að markmiðum málstefnunnar verði náð.